Selfoss skellti Íslandsmeisturunum

Tryggvi Sigurberg Traustason. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti Íslands- og bikarmeisturum Fram í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Eftir rosalegan leik höfðu Selfyssingar betur og sigruðu 32-31.

Upphafsmínúturnar voru í járnum en svo tóku Selfyssingar góðan sprett og komust í 10-5. Selfyssingar héldu forskotinu fram að hálfleik og staðan var 18-14 í leikhléi.

Selfoss jók forskotið í upphafi seinni hálfleiks en síðan fór að draga saman með liðunum og þegar rúmar níu mínútur voru eftir jafnaði Fram 27-27. Jafnt var á öllum tölum eftir það en Selfyssingar áttu síðasta orðið og skoruðu sigurmarkið í blálokin.

Tryggvi Sigurberg Traustason var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Hannes Höskuldsson skoraði 5/3, Jason Dagur Þórsson og Valdimar Örn Ingvarsson 4, Jónas Karl Gunnlaugsson og Sölvi Svavarsson 3, Gunnar Kári Bragason og Haukur Páll Hallgrímsson 2 og Elvar Elí Hallgrímsson 1. Alexander Hrafnkelsson varði 11 skot í marki Selfoss og var með 29% markvörslu.

Með sigrinum lyftu Selfyssingar sér upp í 7. sæti deildarinnar með 3 stig en Fram er í 3. sæti með 4 stig.

Fyrri greinLögreglan varar við svikahröppum
Næsta greinFSu fékk veglega gjöf frá Johan Rönning