Selfoss sígur niður töfluna

Caity Heap skoraði glæsilegt mark fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingum fataðist flugið í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni á útivelli, 2-1.

Leikurinn var rólegur framan af en þegar korter var liðið létu Selfyssingar til sín taka. Caity Heap geystist þá upp miðjuna og var ekkert að tvínóna við hlutina heldur lét vaða af löngu færi upp í samskeytin, 0-1.

Stjörnukonur voru meira með boltann í kjölfarið en fengu ekki mörg færi og staðan var 0-1 í leikhléi.

Stjarnan jafnaði metin þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þær unnu þá boltann á miðjunni með því að strauja Unni Dóru Bergsdóttur en slakur dómari leiksins lét leikinn halda áfram og Stjarnan skoraði nokkrum sekúndum síðar.

Bæði lið áttu ágætar sóknir í kjölfarið en Stjörnukonur voru hættulegri og þær uppskáru sigurmark þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Selfoss missti því Stjörnuna upp fyrir sig í 3. sætið, Stjarnan hefur 19 stig en Selfoss er með 18 stig í 4. sæti.

Fyrri greinSuðurlandsdjazz um versló
Næsta greinBjörgvin Karl í 4. sæti