Selfoss sigraði örugglega á aldursflokkamótinu

Lið Umf. Selfoss með sigurlaunin í mótslok. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennafélag Selfoss sigraði örugglega í stigakeppni Aldursflokkamóts HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Þorlákshafnarvelli síðastliðinn sunnudag.

Átta félög sendu keppendur til leiks og sigraði Selfoss með 590,5 stig en Selfyssingar fóru samtals 100 sinnum á verðlaunapall á mótinu. Í 2. sæti var sameinað lið Heklu og Garps með 204 stig og Hrunamenn í 3. sæti með 117,5 stig.

Á mótinu er keppt í aldursflokkum 11-14 ára, rúmlega 50 keppendur voru skráðir til leiks og leit fjöldi persónulegra bætinga dagsins ljós.

Kristófer Árni Jónsson, Heklu og Veigar Þór Víðisson, Garpi, voru djúgir í stigasöfnuninni fyrir sitt lið en báðir unnu þeir til sex gullverðlauna á mótinu og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Selfoss, vann fimm gullverðlaun.

Garpur/Hekla sigraði í 4×100 m boðhlaupi pilta 14 ára. Sveitina skipuðu Veigar Þór Víðisson, Þórbergur Egill Yngvason, Kristinn Viðar Eyjólfsson og Kristófer Árni Jónsson. Ljósmynd/Ástþór Jón Ragnheiðarson
Fyrri greinFjölbreytt dagskrá þrátt fyrir þrengingar
Næsta greinLögreglumaður smitaður af COVID-19