Héraðsleikar 10 ára og yngri og Aldursflokkamót HSK 11-14 ára fóru fram í síðustu viku á Selfossvelli.
Á Héraðsleikana mættu 75 keppendur til leiks frá sex félögum og voru margir að stíga sín fyrstu skref á keppnisvellinum. Allir þátttakendur fengu verðlaunapening að móti loknu og var leikgleðin í fyrirrúmi þrátt fyrir rigninguna.
Fimmtíu keppendur mættu til leiks á aldursflokkamótið frá átta félögum og var mikið um bætingar á mótinu. Keppt var um verðlaun fyrir stigahæsta félag á mótinu auk verðlauna fyrir stigahæstu félögin samkvæmt aldursflokkum.
Stigahæsta lið 11 ára var Umf. Þjótandi með 70 stig, í flokki 12 ára sigraði Íþf. Dímon með 121 stig, 13 ára flokkinn sigraði Umf. Selfoss með 91 stig sem er aðeins einu stigi betur en Íþr. Dímon og 14 ára flokkinn sigraði Umf. Selfoss örugglega með 173 stig.
Heildarstigakeppnin fór þannig að Þjótandi var í þriðja sæti með 145 stig, Dímon var í öðru sæti með 247 stig og Selfoss sigraði með 377 stig.
Hápunktur mótsins var keppni í 4x100m blönduðu boðhlaupi en þá þurfa sveitirnar að vera skipaðar bæði piltum og stúlkum. Að hafa boðhlaupið blandað gefur fámennari liðum kost á að ná í sveit og það voru átta sveitir frá fimm félögum sem tóku þátt. Sveit Selfoss A sigraði hlaupið, Dímon B var í öðru sæti og Selfoss B í því þriðja.
