Selfoss sigraði á aldursflokkamótinu – Tvíburarnir settu ellefu héraðsmet

Sigurlið Selfoss á aldursflokkamóti HSK 2021. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennafélag Selfoss sigraði örugglega í stigakeppni Aldursflokkamóts HSK í frjálsum íþróttum sem fram fór á Selfossi í síðustu viku.

Sex félög sendu keppendur til leiks og sigraði Selfoss með 526 stig en Selfyssingar fóru samtals 88 sinnum á verðlaunapall á mótinu. Í 2. sæti var sameinað lið Heklu og Garps með 191 stig og Þjótandi í 3. sæti með 109 stig.

Eins og sunnlenska.is greindi frá í síðustu viku var eitt Íslandsmet sett á mótinu en Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, Umf. Selfoss, kastaði 51,11 m í spjótkasti og sigraði í 13 ára flokki. 

Árangur Hjálmars er að sjálfsögðu HSK met í hans flokki en tólf önnur héraðsmet litu dagsins ljós á mótinu. Tvíburarnir Þórhildur Lilja og Þorvaldur Gauti Hafsteinsbörn settu samtals 11 met í 600 metra hlaupi. Þorvaldur Gauti hljóp á 1:35,86 mín sem er héraðsmet í öllum flokkum frá 14 ára flokki og upp í karlaflokk. Hann bætti fimm ára gamalt met Dags Fannars Einarssonar um 0,37 sekúndur. Þórhildur Lilja hljóp á 1:46,87 mín. og bætti HSK metið í fimm flokkum, frá 14 ára flokki og upp í 20-22 ára flokk. Harpa Svansdóttir átti gamla metið, 1:48,19 sett árið 2012.

Keppni í 3.000 m hindrunarhlaupi kvenna var aukagrein á mótinu og þar setti Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, HSK met í öldungaflokki 30-34 ára. Fjóla Signý hljóp á 13:11,83 mín.

Þórhildur Lilja kemur langfyrst í mark í 600 m hlaupinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þorvaldur Gauti á endasprettinum í 600 m hlaupinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Ísold Assa Guðmundsdóttir er hér fremst á myndinni en hún var sigursæl í flokki 14 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Verðlaunahafar í kúluvarpi 12 ára pilta. (F.v.) Kormákur Hjalti Benediktsson (silfur) Sæþór Leó Helgason (gull) Eyþór Bergmann Ingvarsson (brons). sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Vésteinn Loftsson og Hjálmar Vilhelm Rúnarsson há harða keppni í 80 m grindahlaupi og Vikar Reyr Víðisson fylgir fast á eftir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Kristófer Árni Jónsson, Heklu, sigraði í spjótkasti 14 ára pilta og Hrunamennirnir Emil Vilbergsson og Emil Rafn Kristófersson urðu í 2. og 3. sæti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
(F.v.) Hugrún Birna Hjaltadóttir, Arna Hrönn Grétarsdóttir og Sara Mist Sigurðardóttir á verðlaunapalli í hástökki 13 ára stúlkna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fjóla Signý Hannesdóttir setti HSK met í 3.000 m hindrunarhlaupi í flokki 30-34 ára öldunga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinPrófkjör Framsóknar á morgun
Næsta greinÞorsteinn Ragnar íþróttamaður Rangárþings eystra 2020