Selfoss sigraði í spennuleik

Selfoss lagði ÍBV 21-20 í æsispennandi leik í 1. deild karla í handbolta á Selfossi í dag.

Eyjamenn byrjuðu betur og komust í 5-1 en þá tók Selfossóknin loksins við sér eftir getuleysi fyrstu þrettán mínúturnar. Staðan var 7-10 í hálfleik.

Selfyssingar mættu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og skoruðu fjögur fyrstu mörkin. Þeir komust því yfir, 11-10, og eftir það var mjótt á mununum og neglurnar nagaðar upp að kjúku. Selfossvörnin var að standa sig vel í leiknum og Helgi Hlynsson var frábær í rammanum með 29 skot varin.

Lokakaflinn var æsispennandi en Selfyssingar höfðu sigur og eru því komnir með níu stig. Liðið er enn í 5. sæti, fimm stigum á eftir Stjörnunni og ÍBV.

Matthías Örn Halldórsson var lang markahæstur Selfyssinga með 8 mörk auk þess að eiga fínan leik í vörninni. Atli Kristinsson skoraði 4, Ársæll Ársælsson 3, Ómar Helgason 2 og þeir Gunnar Ingi Jónsson, Hörður Bjarnarson, Magnús Magnússon og Einar Sverrisson skoruðu allir eitt mark.

Fyrri greinSogn hagkvæmari kostur en Bitra
Næsta greinTM vann Guðjónsmótið