Selfoss sigraði en Mílan tapaði

Selfoss lagði ÍH á heimavelli í 1. deild karla í handbolta í kvöld á meðan Mílan tapaði á útivelli gegn Þrótti.

ÍH byrjaði betur í leiknum á Selfossi og náði mest fjögurra marka forskoti, 7-11, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Selfyssingar náðu að minnka muninn en eins og tölurnar sýna var fátt um varnir í fyrri hálfleik. Gestirnir leiddu í leikhléi, 17-18.

Selfyssingar byrjuðu betur í seinni hálfleik og voru komnir yfir um hann miðjan, 27-25. Þeir vínrauðu létu forystuna ekki af hendi eftir þetta og náðu mest fjögurra marka forskoti en lokatölur urðu 34-32.

Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson 6, Guðjón Ágústsson skoraði 4, Örn Þrastarson 3 og þeir Árni Geir Hilmarsson, Árni Guðmundsson og Alexander Egan skoruðu allir 2 mörk.

Milan undir mestallan leikinn
Mílan mætti Þrótti á útivelli og þar höfðu heimamenn undirtökin nær allan leikinn. Jafnt var á tölum fyrstu tíu mínúturnar en um miðjan fyrri hálfleikinn hafði Þróttur 6-4 forystu. Heimamenn juku forskotið áður en flautað var til leikhlés en staðan var 13-9 í hálfleik.

Mílanliðið mætti betur stemmt inn í seinni hálfleikinn og jafnaði metin, 16-16, þegar 42 mínútur voru liðnar af leiknum. Í kjölfarið komst Mílan yfir í fyrsta skipti, 16-17, en eftir það tóku Þróttarar aftur frumkvæðið og leiddu til leiksloka. Lokatölur urðu 26-23.

Atli Kristinsson var markahæstur Mílanmanna með 14/7 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 3, Ársæll Ársælsson 2, Sævar Ingi Eiðsson 2/1 og þeir Jóhannes Snær Eiríksson og Magnús Már Magnússon skoruðu sitt markið hvor.

Ástgeir Sigmarsson varði 18 skot í marki Mílunnar og var með 41% markvörslu.

Þegar sjö umferðum er lokið í 1. deildinni er Selfoss í 3. sæti með 10 stig, líkt og Fjölnir sem er í 2. sætinu. Mílan er í 5. sæti með 6 stig og hefur nú tapað fjórum leikjum í röð eftir magnaða byrjun í deildinni.

Fyrri grein„Við erum mjög spennt að frumsýna“
Næsta greinStór skriða féll í Dyrhólaey