Selfoss sigraði Aftureldingu

Selfoss vann 0-2 sigur á Aftureldingu í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Selfoss er nú í 5. sæti deildarinnar með 20 stig.

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði bæði mörk Selfoss með tíu mínútna millibili í fyrri hálfleik. Seinna markið var stórglæsilegt en Guðmunda fékk þá boltann á miðjunni, stormaði upp völlinn og lék á nokkra varnarmenn áður en hún skoraði.

Selfoss er nú í þægilegri stöðu um miðja deild, með tuttugu stig og hefur stórbætt árangur sinn síðan á síðasta tímabili. Það á ekki bara við um stigasöfnunina heldur hefur varnarleikur liðsins verið mun stöðugri. Í fyrra fékk Selfoss á sig 77 mörk í deildinni en í sumar hafa markverðir liðsins þurft að sækja boltann sautján sinnum í netið og fjórum sinnum hafa Selfyssingar haldið hreinu.

Fyrri greinGröfutækni bauð lægst í gatnagerð
Næsta greinBætti 31 árs gamalt héraðsmet