Selfoss sigraði með yfirburðum

Héraðsmót HSK í frjálsum íþróttum fór fram á Selfossi í síðustu viku. Selfyssingar unnu stigakeppni mótsins með yfirburðum.

Fjóla Signý Hannesdóttir, Umf. Selfoss, var stigahæsti keppandi mótsins hjá konunum en hún sigraði í sex greinum; 200 og 400 m hlaupi, hástökki, langstökki, þrístökki og 100 m grindahlaupi þar sem hún vann besta afrek kvenna á mótinu á tímanum 15,11 sek.

Haraldur Einarsson, Umf. Vöku, vann þrjú gull en hann sigraði í 100 og 200 m hlaupi og 110 m grindahlaupi. Hann varð stigahæsti keppandi mótsins í karlaflokki.

Halla María Magnúsdóttir, Umf. Selfoss, sigraði í 100 m hlaupi kvenna en Halla María er aðeins 13 ára gömul og mjög efnileg. Hún varð svo í öðru sæti í spjótkasti í kvennaflokki og setti glæsilegt Íslandsmet í 13 ára flokki þegar hún kastaði 33,63 m en gamla metið var rúmur 31 metri. Halla bætti sig einnig í langstökkinu þar sem hún varð í 2. sæti með 4,81 m.

Kristinn Þór Kristinsson, Umf. Samhygð, sem er einn af bestu hlaupurum landsins í 800 m hlaupi, sigraði örugglega 1:58,36 mín sem er góður tími en Kristinn fékk litla samkeppni og var langfyrstur í mark. Hann sigraði einnig í 400 m hlaupi karla.

Bjarni Már Ólafsson, Umf. Vöku og landsliðsmaður í þrístökki, sigraði í þrístökki og stangarstökki. Hann átti ágætt þrístökk upp á 14,00 m sem er bæting og vann hann með því besta afrek mótsins í karlaflokki nokkrum stigum betri en Hreinn Heiðar Jóhannsson sem sigraði langstökkið með 6,55 m, stökk einum sentimetra lengra en Haraldur Einarsson.

Langstökkskeppnin var athyglisverð að því leiti að fjórir keppendur fóru yfir sex metra en það hefur ekki gerst lengi á HSK móti þó víðar væri leitað á landinu. Auk Hreins og Haraldar stukku handboltamaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson 6,32 m og Bjarni Már stökk 6,21. Þessir keppendur hefðu allir orðið framarlega á Meistaramóti Íslands þó þeir hefðu vissulega ekki komist nálægt Íslandsmeistaranum Kristni Torfasyni, FH.

Hreinn Heiðar sigraði einnig í hástökki þar sem hann stökk 1,90 m en félagi hans úr Laugdælum, Anton Kári Kárason, stökk sömu hæð en eyddi í það fleiri tilraunum.

Ólympíufarinn Óðinn Björn Þorsteinsson, FH, keppti sem gestur á mótinu og kastaði 18,56 m. Að hans eigin sögn vantaði herslumuninn á tækniatriði skiluðu sér og kúlan færi metra lengra. Hann á best rétt yfir 20,00 metra síðan í vor. Ólafur Guðmundsson, Umf. Laugdæla, sigraði hins vegar í kúluvarpinu, kastaði 12,42 m auk þess sem hann sigraði í kringlukasti.

Aðrir sigurvegarar á mótinu voru Harpa Svansdóttir, Umf. Selfoss, sem sigraði í 800 m hlaupi kvenna, Sigurður Páll Sveinbjörnsson, Umf. Selfoss, sigraði í 1.500 m hlaupi karla og Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, í 1.500 m hlaupi kvenna. Ingvar Garðarsson, Umf. Skeið, sigraði í 5.000 m hlaupi karla.

Ágústa Tryggvadóttir, Umf. Selfoss, sigraði í kúluvarpi kvenna, Eyrún Halla Haraldsdóttir, Umf. Selfoss, í kringlukasti kvenna, Dagur Fannar Magnússon, Umf. Selfoss, í sleggjukasti karla og Eva Lind Elíasdóttir, Umf. Þór, í sleggjukasti kvenna.

Guðmundur Kristinn Jónsson, Umf. Selfoss, sigraði í spjótkasti karla og Vigdís Guðjónsdóttir, Umf. Skeið, sigraði í spjótkasti kvenna.

Þá sigraði sveit Þjótanda/Vöku í 4×100 m boðhlaupi karla á 48,10 sek og A-sveit Selfoss sigraði í 4×100 m boðhlaupi kvenna á 53,58 sek.

Ungmennafélag Selfoss vann stigakeppni mótsins með yfirburðum. Athygli vakti að margir karlar kepptu fyrir Selfoss en karlaliðið hefur verið afar fáliðað undanfarin ár.