Selfoss settist á Stólana

Kvennalið Selfoss vann öruggan 4-0 sigur á Tindastóli í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Liðið getur tryggt sér efsta sætið í B-riðli með sigri á Fram nk. laugardag.

Selfosskonur voru mun sterkari í leiknum og leiddu þær 2-0 í hálfleik. Anna María Friðgeirsdóttir og Bergþóra Gná Hannesdóttir skoruðu mörk Selfoss í fyrri hálfleik.

Í seinni hálfleik var það sama uppi á teningnum, Selfyssingar voru sterkari en Stólarnir og Guðmunda Óladóttir kom þeim vínrauðu í 3-0 áður en Karen Inga Bergsdóttir bætti við fjórða markinu með góðum skalla undir lokin.

Selfoss er í efsta sæti B-riðils með 28 stig þegar tvær umferðir eru eftir af riðlakeppninni. Liðið hafði tryggt sér sæti í úrslitakeppni 1. deildarinnar fyrir leikinn gegn Tindastóli en með sigri gegn Fram nk. laugardag er efsta sætið í riðlinum þeirra.