Selfoss semur við Whatley

Karlalið Selfoss í knattspyrnu hefur fengið til liðs við sig velska varnarmanninn Matthew Whatley og mun hann leika með Selfyssingum í 1. deildinni í sumar.

“Þetta er miðvörður sem við skoðuðum í æfingaleik um daginn þar sem hann leit mjög vel út. Við ákváðum að semja við hann í framhaldinu og hann mun væntanlega spila sinn fyrsta leik fyrir Selfoss í deildarbikarnum á sunnudaginn gegn Fram,” sagði Sveinbjörn Másson, framkvæmdastjóri Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

Whatley er 22 ára er uppalinn hjá Swansea og var þar til átján ára aldurs áður en hann gekk í raðir velska úrvalsdeildarliðsins Neath Athletic. Þaðan fór hann til Svíþjóðar og lék með AFC United og Valsta Syrianska.

Í síðustu viku gekk Marko Pavlov til liðs við Selfyssinga frá Víkingi R, sem og Kristján Atli Marteinsson, ungur og efnilegur leikmaður sem kemur til Selfoss frá Fjarðabyggð, en er uppalinn í HK.

Fyrri greinSkoða að breyta nafni sveitarfélagsins
Næsta greinHéraðsþingi HSK frestað um einn dag