Selfoss semur við Englending og Króata

Karlalið Selfoss hefur fengið liðsstyrk fyrir átökin í 1. deildinni í knattspyrnu en liðið hefur samið við þá Joseph Yoffe og Luka Jagacic.

Þeir hafa báðir æft með Selfyssingum síðustu daga en Jagacic er 22 ára gamall miðjumaður frá Króatíu og Yoffe 26 ára framherji frá Englandi.

Jagacic var síðast á mála hjá Gorica í króatísku 1. deildinni en þar áður lék hann með NK Varazdin í úrvalsdeildinni þar í landi. Hann á að baki marga leiki með yngri landsliðum Króatíu.

Yoffe lék síðast með Telford í 5. deildinni á Englandi en hann hefur einnig verið í röðum Bayswater City og Galway United á Írlandi.

Fyrri greinDalton og Brockway í Selfoss
Næsta greinAðalskipulag Mýrdalshrepps samþykkt