Selfoss semur við bandarískan leikmann

Selfyssingar hafa samið við bandaríska miðjumanninn, Valorie O'Brien, um að leika með liðinu í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í sumar.

O’Brien er 22 ára gömul og kemur beint úr háskólaboltanum en hún lauk námi við háskólann í Suður-Flórída í desember. Hún var lykilleikmaður á miðjunni hjá USF Bulls og fyrirliði liðsins síðustu fjögur ár en auk þess að leika á miðsvæðinu getur hún einnig leikið í vörninni.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is fékk O’Brien mjög góð meðmæli frá skólanum sínum og hafði í höndunum tilboð frá Frakklandi og Þýskalandi en hún valdi að fara til Íslands.

O’Brien er fyrsti erlendi leikmaðurinn sem Selfoss semur við en Selfyssingar eru með fleiri járn í eldinum og munu þau mál skýrast fljótlega. O’Brien er væntanleg til landsins í mars.