Selfoss saxar á forskot toppliðanna

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á HK/Víkingi í toppbaráttu 1. deildar kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Lokatölur urðu 2-1.

Selfyssingar byrjuðu betur og á 6. mínútu var Bergrós Ásgeirsdóttir nálægt því að skora en markvörður HK/Víkings varði vel. Skömmu síðar komust gestirnir svo yfir með marki beint úr hornspyrnu. Isabella Aradóttir sneri boltanum þá laglega inn á teiginn og Chanté Sandiford, markvörður Selfoss, náði ekki að stýra boltanum frá.

Eftir markið snarfækkaði færunum en baráttan var í fyrirrúmi úti á vellinum. Hvorugt liðið náði að ógna að ráði, eða ná almennilegum tökum á leiknum. Það var ekki margt í spilunum sem benti til þess að Selfoss væri að fara að jafna í fyrri hálfleik, en Magdalena Reimus var ósammála því. Eftir vel útfærða hornspyrnu hamraði hún knöttinn í netið á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan var 1-1 í leikhléi.

Selfossliðið var sterkara á upphafsmínútum síðari hálfleiks og þær bættu svo heldur betur í þegar Alex Alugas kom inná í sínum fyrsta leik á 54. mínútu. Hún kom með mikinn kraft inn í sóknina og var nálægt því að skora í sínum fyrsta spretti. Á 67. mínútu átti hún gott skot sem markvörður HK/Víkings varði í þverslána og yfir og Selfoss fékk hornspyrnu. Magdalena tók hana og boltinn rataði beint á kollinn á Kristrúnu Rut Antonsdóttur sem skallaði hann í netið.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins voru gestirnir meira með boltann en komust ekkert áleiðis gegn sterkri vörn Selfossliðsins. HK/Víkingur fékk í raun ekki opið færi allan leikinn.

Með sigrinum minnkaði Selfoss forskot HK/Víkings niður í eitt stig og toppliðs Þróttar niður í tvö stig. Þróttur hefur 22 stig í efsta sæti, HK/Víkingur 21 og Selfoss 20 í 3. sæti.

Fyrri greinÓkeypis námsgögn í Hveragerði
Næsta greinElvar Örn framlengir við Selfoss