Selfoss sat eftir á síðasta korterinu

Valdimar Örn Ingvarsson. Ljósmynd/Selfoss

Selfoss tók á móti Haukum í úrvalsdeild karla í handbolta í Set-höllinni í kvöld. Leikurinn var lengst af jafn en Haukar tryggðu sér 30-35 sigur með góðum endaspretti.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, liðin skiptust á um að hafa forystuna en munurinn var aldrei meiri en tvö mörk. Staðan var 16-16 í leikhléi.

Jafnt var á öllum tölum fyrsta korterið í seinni hálfleik en í stöðunni 23-23 tóku Haukarnir frumkvæðið og náðu fimm marka forskoti þegar sex mínútur voru eftir. Selfoss átti engin svör á lokakaflanum og Haukar unnu öruggan sigur.

Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 6/3 mörk, Valdimar Örn Ingvarsson skoraði 4, Elvar Elí Hallgrímsson og Guðjón Óli Ósvaldsson 3, Hákon Garri Gestsson, Anton Breki Hjaltason, Jónas Karl Gunnlaugsson og Haukur Páll Hallgrímsson 2 og þeir Sölvi Svavarsson, Jason Dagur Þórisson, Tryggvi Sigurberg Traustason, Árni Ísleifsson, Gunnar Kári Bragason og markvörðurinn Alexander Hrafnkelsson skoruðu allir 1 mark. Alexander varði 12/2 skot og var með 27% markvörslu.

Haukar eru á toppi deildarinnar með 16 stig en Selfoss er í 11. sæti með 5 stig.

Fyrri greinÉg sendi þér vals!
Næsta greinSpaugsamur afi á Selfossi