Selfoss sá við Stjörnunni

Karlalið Selfoss í knattspyrnu vann öruggan sigur á Pepsi-deildarliði Stjörnunnar þegar þau mættust í æfingaleik í Kórnum í dag.

Lokatölur urðu 5-2. Jón Daði Böðvarsson kom Selfyssingum yfir áður en Stjörnumenn jöfnuðu úr vítaspyrnu. Selfoss fékk næstu vítaspyrnu þar sem Agnar Bragi Magnússon fór á punktinn og skoraði.

Miðvörðurinn Kjartan Sigurðsson kom Selfoss í 3-1 en Stjarnan minnkaði muninn í 3-2. Þá kom annað mark frá Kjartani og að lokum var það Viðar Örn Kjartansson sem innsiglaði 5-2 sigur.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur – Sigurður Eyberg, Kjartan, Auðun, Andri Freyr – Agnar Bragi, Einar Ottó – Ingþór, Arilíus, Jón Daði – Viðar.

Guðmundur Ármann, Ingi Rafn, Guðmundur Garðar og Arnar Freyr komu inná í seinni hálfleik fyrir Viðar, Auðun, Ingþór og Andra.

Síðasti æfingaleikur Selfyssinga fyrir jól er á laugardaginn eftir viku gegn Aftureldingu.