Selfoss réð ekki við Gróttuvörnina

Selfoss og Grótta mættust í Olís-deild kvenna í handbolta í gær, þremur dögum eftir viðureign liðanna í bikarkeppninni, þar sem Grótta sigraði. Sú varð einnig raunin í gær.

Leikurinn var jafn framan af en undir lok fyrri hálfleiks náði Grótta góðu forskoti. Selfoss skoraði aðeins eitt mark á síðustu tíu mínútum fyrri hálfleiks og Grótta breytti stöðunni úr 10-8 í 16-9 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Grótta hafði frumkvæðið í seinni hálfleik og leiddi með tíu mörkum þegar fimm mínútur voru eftir, 28-18. Selfoss lagaði stöðuna aðeins í lokin og skoraði síðustu fimm mörk leiksins en lokatölur urðu 28-23.

Selfoss er áfram í 7. sæti deildarinnar með 20 stig en Grótta endurheimti toppsætið með sigrinum og hefur 33 stig.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 11 mör, Adina Ghidoarca skoraði 4, Perla Ruth Albertsdóttir 3, Thelma Sif Kristjánsdóttir 2 og þær Elena Birgisdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Steinunn Hansdóttir skoruðu allar 1 mark.

Fyrri grein„Gerðum bara allt of mörg mistök“
Næsta greinLeitað eftir fjármunum til kaupa á hljóðkerfi