Selfoss og Uppsveitir úr leik

George Razvan, framherji Uppsveita. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Uppsveitir eru úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir að hafa beðið lægri hlut í 32-liða úrslitunum í kvöld.

Selfoss heimsótti Leikni í Lengjudeildarslag í Breiðholtinu. Þetta var hnífjafn hörkuleikur þar sem bæði lið áttu góða spretti og fín færi en inn vildi boltinn alls ekki. Allt stefndi í framlengingu en á 89. mínútu sluppu Leiknismenn innfyrir og skoruðu sigurmarkið, lokatölur 1-0.

Einn af stórleikjum umferðarinnar var leikur KA og Uppsveita á Greifavellinum á Akureyri. Verðugt verkefni fyrir 4. deildarliðið að mæta Bestudeildarliði KA. Það fór svo að KA vann nokkuð sanngjarnan sigur en staðan var orðin 4-0 í hálfleik. KA náði að troða inn einu marki til viðbótar í seinni hálfleik og fór með sigur af hólmi. Athygli vakti að Gísli Þór Brynjarsson, formaður meistaraflokksráðs Uppsveita, byrjaði á bekknum og því fór sem fór.

Einn áhugaverðasti leikur 32-liða úrslitanna fer fram á Selfossvelli á morgun, sumardaginn fyrsta, þegar Ægir fær Bestudeildarlið FH í heimsókn. Leikurinn hefst kl. 14.

Fyrri greinGestir í heimsókn frá Noregi
Næsta greinHamar færist nær úrvalsdeildinni