Karlalið Selfoss í handbolta gerði sér ferð norður á Akureyri í dag þar sem liðið heimsótti Þór í úrvalsdeildinni. Þórsarar voru feti framar stærstan hluta leiksins og sigruðu 31-28.
Eftir jafnar upphafsmínútur sigu Þórsarar fljótlega framúr og náðu mest fjögurra marka forskoti. Selfoss minnkaði muninn fyrir hálfleik og staðan var 13-11 í leikhléi.
Selfyssingar voru fljótir að jafna metin í upphafi seinni hálfleiks en þá tóku Þórsarar aftur við sér og náðu í kjölfarið sjö marka forskoti, 24-17. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútunum að eitthvað dró saman með liðunum en bilið var orðið of mikið til þess að Selfoss gæti brúað það.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7/1 mörk, Anton Breki Hjaltason skoraði 5, Jason Dagur Þórisson 4, Hákon Garri Gestson 4/1, Tryggvi Sigurberg Traustason og Gunnar Kári Bragason 2 og þeir Haukur Páll Hallgrímsson, Sölvi Svavarsson, Elvar Elí Hallgrímsson og Jónas Karl Gunnlaugsson skoruðu allir 1 mark.
Alexander Hrafnkelsson varði 10 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu.
Úrslitin þýða að liðin hafa sætaskipti í deildinni. Selfyssingar eru komnir niður í 11. sæti deildarinnar með 5 stig en Þórsarar eru í 10. sætinu með 6 stig.
