Selfoss og Mílan með sigra – Selfoss í 2. sætið

Selfoss og Mílan unnu sína leiki í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Selfoss mætti Þrótti á útivelli og Mílan heimsótti KR í Vesturbæinn.

Mílan vann sinn fyrsta sigur í sex leikjum þegar liðið heimsótti KR í kvöld. Mílan byrjaði reyndar illa í leiknum, KR leiddi allan fyrri hálfleikinn en staðan var 14-12 í hálfleik.

Í seinni hálfleik var framan af ekkert í spilunum sem benti til sigurs Mílunnar. KR leiddi 23-19 um miðjan fyrri hálfleikinn en þá small Míluliðið saman í vörn og sókn og lokamínúturnar urðu æsispennandi. Mílan komst yfir í fyrsta skipti þegar tæp mínúta var eftir, 24-25, KR klikkaði á næstu sókn og Mílan skoraði lokamarkið, 24-26.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 11 mörk, Sævar Ingi Eiðsson skoraði 6, Sigurður Már Guðmundsson 4, Gunnar Páll Júlíusson 3 og þeir Eyþór Jónsson og Ingvi Tryggvason skoruðu sitt markið hvor. Ástgeir Sigmarsson varði 21 skot og var með 46% markvörslu.

Selfoss í 2. sætið
Selfyssingar fóru upp í 2. sæti deildarinnar í kvöld með sigri á Þrótti á meðan Fjölnir tapaði fyrir Stjörnunni.

Selfoss náði góðu forskoti í upphafi leiks, 3-7, en Þróttur náði að jafna 9-9. Staðan var 11-12 í hálfleik, Selfyssingum í vil.

Leikurinn var í járnum fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks en þá tóku Selfyssingar við sér og náðu sex marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn, 15-21. Þróttarar sóttu grimmt að gestum sínum á lokakaflanum og náðu að minnka muninn í tvö mörk þegar tvær mínútur voru eftir en Selfoss hélt Þrótti frá sér í lokin og vann 23-25 sigur.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Andri Már Sveinsson skoraði 5, Alexander Egan og Eyvindur Hrannar Gunnarsson 3, Árni Guðmundsson 2 og þeir Hergeir Grímsson, Teitur Örn Einarsson, Egidijus Mikalonis og Árni Geir Hilmarsson skoruðu 1 mark hver. Helgi Hlynsson varði 22 skot og var með 52% markvörslu.

Fyrri greinHamar tók Blika í kennslustund
Næsta greinVilja fremur sjá hækkun fasteignaskatts en mikla þjónustuskerðingu