Selfoss og Hrunamenn töpuðu

Karlo Lebo skoraði 29 stig fyrir Hrunamenn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Selfoss mætti Sindra á Hornafirði en Hrunamenn heimsóttu Skallagrím.

Það var hörkuspenna á Hornafirði. Sindramenn voru betri í fyrri hálfleik og leiddu 39-28 í hálfleik. Selfoss lokaði 3. leikhluta á 11-2 áhlaupi og breytti stöðunni í 58-51 en Sindramenn léku sama leik í upphafi 4. leikhluta og staðan var 69-53 þegar fimm og hálf mínúta voru eftir af leiknum. Þá tóku Selfyssingar öll völd á vellinum og náðu að jafna 71-71 og nægur tími á klukkunni. Sindri vaknaði þá af værum blundi og lokaði leiknum á rúmlega mínútu en Selfoss náði að klóra í bakkann með þriggja stiga körfu á lokasekúndunni. Lokatölur 77-76. Terrence Motley var sterkur í liði Selfoss með 20 stig og 12 fráköst en Kristijan Vladovic og Gunnar Steinþórsson skoruðu 15 stig.

Í Borgarnesi var minni spenna og Skallagrímur hafði frumkvæðið stærstan hluta leiksins. Staðan var 42-33 í hálfleik og forskot heimamanna jókst jafnt og þétt í seinni hálfleik. Lokatölur urðu 86-68. Corey Taite var sem fyrr besti maður Hrunamanna með 37 stig, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Veigar Páll Alexandersson skoraði 13 stig og Karlo Lebo 8 auk þess sem hann tók 9 fráköst.

Staða Hrunamanna og Selfyssinga í deildinni breyttist því ekki í kvöld, en liðin eru í 8. og 9. sæti með 6 stig.

Fyrri greinTvö sjálfsmörk í Laugardalnum
Næsta greinMalson mátaði Hvíta riddarann