Selfoss og Hrunamenn töpuðu

Gasper Rojko var sterkur með 21 stig og 11 fráköst fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn töpuðu sínum leikjum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Selfoss sótti Sindra heim en Hrunamenn heimsóttu Fjölni.

Á Hornafirði byrjaði Selfoss af krafti og leiddi allan 1. leikhlutann. Munurinn jókst svo enn frekar í upphafi 2. leikhluta þegar Selfoss gerði 16-3 áhlaup og staðan var þá orðin 22-38. Sindramenn voru ekki hættir, þeir náðu að jafna 43-43 og staðan í hálfleik var 45-47, Selfoss í vil. Í seinni hálfleiknum gekk hins vegar lítið upp hjá Selfyssingum. Sindri komst fljótlega yfir og Selfoss náði ekki að svara fyrir sig. Lokatölur urðu 93-74. Trevon Evans var stigahæstur Selfyssinga með 23 stig og Gasper Rojko var sterkur með 21 stig og 11 fráköst.

Hrunamenn mættu Fjölni í Grafarvoginum og þar höfðu heimamenn undirtökin lengst af leiknum. Staðan var 58-33 í hálfleik, Fjölni í vil, og munurinn breyttist lítið í 3. leikhluta. Í þeim fjórða tóku Hrunamenn hins vegar öll völd og þeir náðu að minnka muninn niður í sex stig á lokamínútunni. Fjölnir hélt hins vegar út og sigraði 100-90. Clayton Ladine fór á kostum hjá Hrunamönnum, skoraði 38 stig og tók 9 fráköst.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 14 stig en Hrunamenn eru í 8. sæti með 8 stig.

Tölfræði Selfoss: Trevon Evans 23/4 fráköst/5 stoðsendingar, Gasper Rojko 21/11 fráköst, Gerald Robinson 15/14 fráköst, Vito Smojver 10, Óli Gunnar Gestsson 5, Arnar Geir Líndal 4 fráköst.

Tölfræði Hrunamanna: Clayton Ladine 38/9 fráköst/6 stoðsendingar, Karlo Lebo 26/5 fráköst, Yngvi Freyr Óskarsson 7/8 fráköst, Páll Magnús Unnsteinsson 6, Óðinn Freyr Árnason 5, Eyþór Orri Árnason 4, Hringur Karlsson 2/4 fráköst, Dagur Úlfarsson 2, Kristófer Tjörvi Einarsson 5 fráköst.

Fyrri greinÓmar Ingi handknattleiksmaður ársins
Næsta greinHamar-Þór í jólastuði