Selfoss og HK skiptu með sér stigunum

Lið Selfoss og HK skildu jöfn þegar þau mættust í Olís-deild kvenna í handbolta á Selfossi í dag. Lokatölur leiksins voru 23-23.

HK leiddi nær allan leikinn en Selfyssingar voru að spila fína vörn og hleyptu gestunum aldrei langt frá sér. HK leiddi með tveimur mörkum í hálfleik og hafði frumkvæðið áfram framan af síðari hálfleik.

Á síðustu fimmtán mínútum leiksins náðu Selfyssingar hins vegar með góðri baráttu að snúa leiknum sér í vil og komust yfir en HK beit aftur frá sér undir lokin og jafnaði metin undir lokin.

Þuríður Guðjónsdóttir var markahæst Selfyssinga með 5 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu 4, Hildur Öder Einarsdóttir, Carmen Palamiariu og Kara Rún Árnadóttir skoruðu allar 3 mörk og Dagmar Öder Einarsdóttir 1.

Selfoss er í 9. sæti deildarinnar með 5 stig, jafnmörg stig og FH og KA/Þór.

Fyrri greinUndirbúa sölu fasteigna
Næsta greinUngar stúlkur í sjálfheldu