Selfoss og Haukar leika til úrslita

Selfyssingar lögðu FH-inga að velli á Ragnarsmótinu í handbolta í kvöld, 26-25. Selfoss og Haukar leika til úrslita á mótinu.

Selfyssingar byrjuðu leikinn afar illa og voru yfirspilaðir af FH í fyrri hálfleik og voru heppnir að vera aðeins 4 mörkum undir í hálfleik, 9-13. Allt annað var að sjá til liðsins í síðari hálfleik og eftir að Selfyssingar komust yfir 19-18 um miðjan síðari hálfleikinn þá voru þeir alltaf einu skrefi á undan.

Leikurinn endaði í mikilli spennu og dramatík en annan leikinn í röð náðu Selfyssingar að koma í veg fyrir mark andstæðinganna í síðustu sókn leiksins og innbyrða aftur 1 marks sigur, 26-25. Það þýðir að liðið leikur til úrslita á mótinu í aðeins annað skipti á síðustu 10 árum.

Ragnar Jóhannsson skoraði 7 mörk fyrir Selfoss, Guðjón Drengsson 6 og Atli Kristinsson 5.

Í seinni leik kvöldsins sigraði Fram Val 25-29. Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleikinn og skiptust liðin á að ráða ferðinni. Staðan í hálfleik var 15-14 fyrir Valsmenn. Í síðari hálflleik hélt sama baráttan áfram og var leikurinn í járnum alveg þangað til rúmar 5 mínútur voru eftir en þá náðu Framarar yfirhöndinni og unnu 4 marka sigur sem var þrátt fyrir jafnan leik aldrei í hættu í lokin.

Úrslitaleikur Ragnarsmótsins er kl. 16 á laugardag. Kl. 12 mætast FH og Fram í leik um 5. sætið og kl. 16 leika HK og Valur og um 3. sætið.