Selfoss og Árborg í eldlínunni

Kvennalið Selfoss og karlalið Árborgar eru í eldlínunni í dag þegar úrslitakeppni 1. deildar kvenna og 3. deildar karla í knattspyrnu hefst.

Selfosskonur taka á móti Þrótti Reykjavík á Selfossvelli kl. 14. Selfossliðið lenti í 2. sæti B-riðils en Þróttarar sigruðu í A-riðli. Í báðum riðlunum var hnífjöfn barátta um tvö efstu sætin en í hinni viðureigninni í 4-liða úrslitum mætast Keflavík og ÍBV. Leikið er heima og heiman en seinni leikirnir fara fram á miðvikudagskvöld. Það lið sem vinnur samanlagt hefur tryggt sér sæti í Pepsi-deild kvenna að ári.

Árborgarar halda til Vestmannaeyja og mæta KFS í 8-liða úrslitum 3. deildarinnar kl. 15:30 í dag. Árborg sigraði örugglega í A-riðli 3. deildar en KFS var í 2. sæti í B-riðlinum. Ljóst er að um hörkuleik verður að ræða en liðin hafa mæst fjórtán sinnum og hefur KFS sigrað í átta viðureignum en Árborg í sex. Leikið er heima og heiman en síðari leikurinn fer fram á Selfossi á þriðjudagskvöld. Liðið sem sigrar samanlagt fer í 4-liða úrslit og mætir þar annaðhvort Tindastóli frá Sauðárkróki eða Magna frá Grenivík.