Selfoss nálgast öruggt sæti

Aron Einarsson í baráttunni um boltann í kvöld. Aron lék vel á miðjunni hjá Selfyssingum og hélt sköpunarkrafti gestanna í skefjum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á Aftureldingu í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu þegar liðin mættust á Selfossvelli.

Bæði lið spiluðu af krafti í fyrri hálfleik og gestirnir áttu meðal annars stangarskot áður en Selfyssingum tókst að skora á 39. mínútu. Gary Martin kom boltanum þá í netið eftir mikinn bægslagang í vítateig Aftureldingar.

Staðan var 1-0 í hálfleik en strax á 3. mínútu síðari hálfleiks var brotið á Martin í vítateig Aftureldingar og Selfoss fékk vítaspyrnu. Martin fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Selfoss hélt vel á spöðunum í framhaldinu og gestirnir úr Mosfellsbæ fundu fáar smugur á vörn heimamanna. Á 84. mínútu kórónaði Ingvi Rafn Óskarsson svo góðan leik Selfoss með fallegu marki og lokatölur urðu 3-0.

Í kvöld skildu Þróttur og Fram jöfn, 2-2, þannig að Selfoss hefur nú sjö stiga forskot á Þrótt þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni. Selfoss er áfram í 10. sæti með 18 stig en Þróttur í 11. sæti með 11 stig. Þar fyrir neðan er Víkingur Ólafsvík sem stefnir hraðbyri niður í 2. deild.

Fyrri greinBanaslys á Eyrarbakka
Næsta greinÍstak bauð lægst í brúarsmíði