Selfoss náði jafntefli gegn botnliðinu

Gary Martin skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar gerðu ekki góða ferð suður með sjó í kvöld þegar þeir heimsóttu botnlið Þróttar í Vogum í Lengjudeild karla í knattspyrnu.

Þróttur komst yfir strax á 5. mínútu leiksins þegar rangstöðugildra Selfyssinga klikkaði og tveir Þróttarar sluppu innfyrir. Eftir markið tóku Selfyssingar leikinn í sínar hendur en náðu ekki að skapa sér teljandi færi í fyrri hálfleiknum.

Staðan var 1-0 í hálfleik og seinni hálfleikurinn var í járnum lengst af. Liðin sköpuðu lítið af færum en á 79. mínútu dró til tíðinda þegar Gary Martin jafnaði eftir barning í vítateig Þróttar. Það var meiri kraftur í Selfyssingum á lokakaflanum en þeim tókst ekki að koma inn sigurmarkinu.

Það fækkaði í röðum Selfyssinga í uppbótartímanum þegar Reynir Freyr Sveinsson fékk tvö gul með sex mínútna millibili, í sínum fyrsta leik með Selfyssingum í sumar. Liðsmunurinn kom ekki að sök og þegar upp var staðið voru bæði lið líklega nokkuð svekkt með úrslit leiksins, 1-1 jafntefli.

Stigið lyfti Selfyssingum upp í 6. sæti deildarinnar, með 22 stig en öll liðin í kringum þá eiga leik til góða. Þróttarar eru áfram á botninum með 6 stig.

Fyrri greinMarkalaust þegar Fríða mætti á völlinn
Næsta greinÁrborg í úrslitakeppnina – Uppsveitir skoruðu tíu