Selfoss náði að knýja fram jafntefli

Selfoss og Fjölnir skildu jöfn, 23-23, í hörkuspennandi leik í 1. deild karla í handbolta í Dalhúsum í Grafarvogi í gærkvöldi.

Fjölnir byrjaði betur í leiknum og komst í 3-1 en Selfyssingar svöruðu fyrir sig og komust í 5-9 eftir að Sebastian Alexandersson hafði lokað og læst marki Selfoss. Fjölnir náði að minnka muninn í 9-12 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Selfyssingar hikstuðu í sókninni í upphafi seinni hálfleiks og Fjölnir jafnaði 13-13. Selfoss náði aftur tveggja marka forystu í kjölfarið, 15-17, en Fjölnir skoraði þá tvö mörk í röð og jafnaði 17-17.

Lokamínúturnar voru æsispennandi, Fjölnir komst í 23-21 en Selfyssingar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins. Guðjón Ágústsson jafnaði 23-23 þegar átta sekúndur voru eftir af leiknum en Fjölnismenn náðu ekki skoti á mark í lokasókn sinni.

Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 6 mörk, Hörður Másson skoraði 5, Guðjón Ágústsson 4, Hergeir Grímsson 3, Örn Þrastarson 2 og þeir Elvar Örn Jónsson, Ómar Vignir Helgason og Egidijus Mikalonis skoruðu allir 1 mark.

Sebastian Alexandersson varði 20 skot og Helgi Hlynsson 3.

Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 12 stig en Fjölnir í 3. sæti með 15 stig.

Fyrri greinBókaupplestur og jólasýning í Húsinu
Næsta greinFjórðungs launahækkun „óskiljanleg“