Selfoss náði markmiðinu

Lið Selfoss HM1 varð í 8. sæti á Evrópumeistaramótinu í hópfimleikum fullorðinna en keppt er í Malmö um helgina.

Selfossliðið átti góðan dag í gær og keyrði sínar æfingar vel en mistök á dýnu kostuðu liðið mörg stig. Átján lið kepptu í undanúrslitum og fór Selfossliðið út með það að markmiði að ná 8. sæti. Lið Gerplu stóð efst eftir undanúrslitin og Gerplurnar tryggðu sér svo Evrópumeistaratitilinn í dag en sex efstu liðin fóru í úrslit.

Að sögn Sigríðar Óskar Harðardóttur, eins þjálfara Selfossliðsins, voru stelpurnar mjög stoltar af sínum árangri og ánægðar með daginn.

Í dag fara fram úrslit í unglingaflokki en þar á Selfoss tvo fulltrúa í íslenska landsliðinu, Evu Grímsdóttur og Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur.