Selfoss missti toppsætið

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss missti efsta sætið í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í hendur Vals í kvöld. Selfoss gerði markalaust jafntefli við Keflavík á heimavelli á meðan Valur valtaði yfir KR.

Selfoss hefur því 11 stig í 2. sæti en Valur er með 12 stig í toppsætinu að loknum fimm umferðum.

Það var reyndar ótrúlegt að Selfoss næði ekki sigri í kvöld. Leikurinn gegn Keflavík var algjör einstefna, Selfoss átti fjórtán markskot og fékk þrettán hornspyrnur en boltinn vildi alls ekki fara í netið. Það vantaði ekki færin, dauðafæri bæði í fyrri og seinni hálfleik en Keflavík hélt út og fagnaði stiginu mun meira en Selfyssingar.

„Ég er mjög svekktur yfir því að hafa bara tekið eitt stig út úr þessum leik en að sama skapi er ég mjög ánægður með hvernig við spiluðum þennan leik. Ég hefði kannski viljað aðeins meiri þolinmæði í kringum markið þeirra. Við erum að gera vel úti á vellinum en vantar bara að afgreiða leikinn inni í vítateignum,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Næsti leikur Selfoss er í Garðabænum á mánudagskvöldið, gegn Stjörnunni, sem einnig ætlar að gera tilkall til toppbaráttunnar í sumar. Útlit fyrir hörkuleik þar.

Fyrri greinGróðursetning verði árlegur viðburður allra nemenda
Næsta greinHamar skoraði níu mörk