Selfoss missti niður þriggja marka forskot

Katrín Ágústsdóttir skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss er úr leik í Mjólkurbikar kvenna í knattspyrnu eftir 5-4 tap gegn ÍA í framlengdum leik í Akraneshöllinni í kvöld.

Þær vínrauðu byrjuðu frábærlega; Unnur Dóra Bergsdóttir skoraði strax á 4. mínútu með skalla eftir hornspyrnu og Jóhanna Elín Halldórsdóttir tvöfaldaði forystuna með marki úr langskoti um miðjan fyrri hálfleikinn. Katrín Ágústsdóttir kórónaði svo góðan fyrri hálfleik Selfyssinga með marki á lokamínútunni eftir skelfileg mistök markvarðar ÍA.

Heimakonur mættu sterkari inn í seinni hálfleikinn en mörkin komu ekki fyrr en á síðasta korterinu. ÍA skoraði þá tvívegis með rúmlega mínútu millibili eftir þunga sókn og jafnaði svo 3-3 á 84. mínútu.

Selfoss fékk vítaspyrnu á 90. mínútu eftir að markvörður ÍA braut á Guðrúnu Þóru Geirsdóttur. Skagamenn voru ósáttir við dóminn en Anna María Friðgeirsdóttir var ekkert að spá í því og skoraði af miklu öryggi. Rúmri mínútu gaf dómari leiksins svo ÍA vítaspyrnu þegar leikmaður ÍA hljóp á Heklu Kristófersdóttur í teignum og staðan aftur orðin jöfn, 4-4.

Framlenging því raunin og þar voru heimakonur fljótar að tryggja sér sigurinn. ÍA komst í 5-4 á fjórðu mínútu framlengingarinnar eftir klafs upp úr aukaspyrnu og þar við sat. ÍA fer áfram í 2. umferðina og mætir þar Fjölni en Selfoss er úr leik.

Fyrri greinNjarðvík knúði fram oddaleik
Næsta greinVel studdir Selfyssingar skiluðu sínu á NM