Selfoss bikarmeistari í 3. flokki karla

Bikarmeistarar Selfoss. Ljósmynd/Selfoss handbolti

Selfyssingar tryggðu sér í kvöld bikarmeistaratitilinn í handbolta í 3. flokki karla eftir hörkuleik í úrslitum gegn Fram á Ásvöllum í Hafnarfirði í dag.

Leikurinn var jafn og spennandi lengst af, staðan í hálfleik var 14-14 og áfram var jafnt fram í miðjan seinni hálfleikinn. Á lokakaflanum sýndu Selfyssingar styrk sinn, þeir náðu þriggja marka forskoti og þegar Fram hótaði að jafna metin stigu Selfyssingar á bensíngjöfina og sigruðu að lokum örugglega, 32-26.

Jón Þórarinn Þorsteinsson, markvörður Selfoss, var útnefndur maður leiksins en hann varði 22/1 skot og var með 44% markvörslu.

Ísak Gústafsson var markahæstur Selfyssinga með 12/1 mörk, Sigurður Snær Sigurjónsson skoraði 7 mörk, Hans Jörgen Ólafsson 4, Elvar Elí Hallgrímsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson 2, Árni Ísleifsson 2/1 og Jónas Karl Gunnlaugsson 1. Ísak Kristinn Jónsson varði 1/1 skot og var með 100% markvörslu.

Bikarinn fer á loft. Ljósmynd/HSÍ
Fyrri greinBetur fór en á horfðist á Lyngdalsheiði
Næsta greinHrunamenn unnu baráttuna í Borgarnesi – Hamar og Selfoss töpuðu