Selfoss með fullt hús stiga

Sif Atladóttir fagnar með Brenna Lovera en þær áttu báðar fínan leik í dag. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Kvennalið Selfoss vann sætan sigur á ÍBV í Bestu deildinni í knattspyrnu á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og fátt um færi á rennblautu grasinu. Eyjakonur voru meira með boltann en sköpuðu engin færi og hinu megin á vellinum var sömu leiðis lítið að frétta. Besta marktækifæri fyrri hálfleiks fékk Brenna Lovera þegar hún skallaði fyrirgjöf Bergrósar Ásgeirsdóttur framhjá á 14. mínútu.

Staðan var 0-0 í hálfleik en Selfyssingar mættu mun hressari inn í seinni hálfleikinn. Áfram voru upphlaup Bergrósar á hægri kantinum hættulegasta vopn Selfoss og á 54. mínútu átti hún fasta fyrirgjöf sem Guðný Geirsdóttir, markvörður ÍBV, varði út í teiginn. Þar var Brenna að sjálfsögðu mætt og púttaði boltanum örugglega í netið.

Þetta reyndist eina mark leiksins, en eftir að Selfoss komst yfir sótti ÍBV nokkuð í sig veðrið. Selfossvörnin og Tiffany Sornpao í markinu voru þó með allt á hreinu og áttu stórgóðan leik.

Selfoss er í toppsæti deildarinnar með 6 stig en Keflavík og Breiðablik eru með 3 stig og eiga leik til góða.

Fyrri greinSafna undirskriftum vegna Hamarshallarinnar
Næsta greinTvö vinnuslys í Þorlákshöfn