Selfoss með sigur í fyrsta leik

Kvennalið Selfoss í handbolta hóf keppni í Olís-deildinni síðastliðinn laugardag þegar nýliðar KA/Þórs komu í heimsókn. Eftir hörkuleik höfðu Selfyssingar sigur, 25-24.

Það var nokkur skjálfti í Selfyssingum í upphafi en um miðjan fyrri hálfleik náðu þær frumkvæðinu í leiknum og breyttu stöðunni úr 5-5 í 10-7. Staðan var 15-14 í hálfleik. Selfoss var skrefi á undan allan síðari hálfleikinn en norðankonur fylgdu þeim eins og skugginn. Eftir dramatískar lokamínútur þar sem Selfyssingar misnotuðu m.a. vítakast tókst þeim að verjast seinustu sókn Akureyringa og landa eins marks sigri, 25-24.

Þuríður Guðjónsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 7, Tinna Soffía Traustadóttir 4, Hildur Öder Einarsdóttir 3 og þær Kara Rún Árnadóttir og Thelma Sif Kristinsdóttir skoruðu sitt markið hvor. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 16/1 skot í marki Selfoss og var með 42% markvörslu.

Fyrir tímabilið var Selfyssingum spáð 10. sæti í deildinni sem nú skipa tólf lið. Stjörnunni er spáð sigri, Valskonum 2. sæti, Fram því þriðja og ÍBV fjórða.

Næsti leikur Selfoss er gegn bikarmeisturum Vals í Vodafone höllinni á laugardaginn kl. 13:30.

Fyrri greinKrakkaborg lokað vegna myglusvepps
Næsta greinLjóð í lystigarði