Selfoss með lið í efstu deild kvenna

Næsta vetur verður handknattleiksdeild Selfoss með kvennalið í meistaraflokki í efstu deild. Er það í fyrsta sinn síðan kvennahandboltinn var endurvakinn á Selfossi fyrir tíu árum síðan.

Liðið er að mestu byggt upp af ungum leikmönnum uppöldum á Selfossi. Ungu stelpurnar hafa skilað félaginu nokkrum Íslandsmeistaratitlum og bikarmeistaratitlum undanfarin ár í yngri flokkum.

Meistaraflokkur kvenna tók þátt í Utandeildinni síðastliðinn vetur. Liðið gerði sér lítið fyrir og varð Íslandsmeistari eftir æsispennandi framlengdan úrslitaleik við Víking 26-27. Liðið náði vel saman og liðshelild og leikgleði einkenndi hópinn. Eldri leikmennirnir höfðu gríðarlega góð áhrif á hópinn og voru mjög mikilvægar liðinu. Yngri stelpurnar stóðu sig vel og tóku miklum framförum sem þær koma til með að búa vel að. Yngstu stelpurnar fengu gríðarlega reynslu í vetur sem á eftir að skila sér margfalt til baka á næstu árum. Alls spiluðu þrír leikmenn úr 4. flokki annað slagið með liðinu í vetur.

Stelpunum hefur bæst góður liðsstyrkur fyrir N1 deildina í vetur. Áslaug Ýr Bragadóttir markmaður er komin heim frá Noregi og Kristrún Steinþórsdóttir kemur aftur til baka frá FH. Þá kemur Tinna Soffía Traustadóttir línumaður frá Fylki og mun örugglega hrista vel upp í vörn andstæðinganna.

Það verður án efa á brattann að sækja hjá stelpunum en aðstandendur liðsins skora á sem flesta að sýna stelpunum stuðning og mæta á handboltaleiki næsta vetur.