Selfoss mætir Þór Þ í bikarnum – Hamar úr leik

Chris Caird, þjálfari Selfoss, fer yfir málin með sínum mönnum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann ÍA nokkuð örugglega í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik í kvöld á meðan Hamar tapaði gegn Vestra.

Selfoss og ÍA mættust í Gjánni á Selfossi í kvöld þar sem Selfoss sigraði 82-67. Selfyssingar eru því komnir áfram í 16-liða úrslitin og mæta þar Íslandsmeisturum Þórs en leikurinn fer fram á Selfossi þann 30. október.

Í Hveragerði tók Hamar á móti úrvalsdeildarliði Vestra. Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik þar sem var boðið upp á stórskotasýningu og Hamar leiddi 61-56 í hálfleik. Gestirnir reyndust sterkari í seinni hálfleik og þeir gerðu út um leikinn í 4. leikhluta en lokatölurnar urðu 86-103. Dareial Franklin var stigahæstur hjá Hamri með 27 stig og Kristijan Vladovic skoraði 17.

Fyrri greinSektaður fyrir of þungan vörubíl
Næsta greinLöggan fylgist með ljósunum