Selfoss lyfti sér upp í miðja deild

Selfyssingar unnu góðan sigur í dag og lyftu sér upp í miðja deild þegar liðið lagði Fjarðabyggð 2-1 í 1. deild karla í knattspyrnu.

Selfoss fékk dauðafæri strax á 1. mínútu og hafði yfirhöndina framan af. Arnar Logi Sveinsson kom þeim yfir á 17. mínútu þegar hann skallaði aukaspyrnu frá Þorsteini Daníel Þorsteinssyni í netið.

Forysta Selfyssinga varði þó aðeins í tæpar tíu mínútur því á 26. mínútu varð Óttar Guðlaugsson fyrir því óláni að flikka boltanum í eigið net eftir aukaspyrnu gestanna.

Fyrri hálfleikurinn fjaraði út í rólegheitum en í upphafi þess síðari hresstust Selfyssingar nokkuð. Þeim tókst þó ekki að skora þrátt fyrir ágæt færi. Á 80. mínútu var leikmanni Fjarðabyggðar svo vísað af velli eftir hrikalega tæklingu á Arnar Loga úti á miðjum velli.

Selfyssingar voru fljótir að nýta sér liðsmuninn því JC Mack skoraði snyrtilegt mark eftir klafs í vítateig Fjarðabyggðar upp úr aukaspyrnu á 81. mínútu. JC var svo nálægt því að bæta við marki þegar tvær mínútur voru eftir en skaut í þverslána úr galopnu færi.

Með sigrinum eru Selfyssingar komnir upp í 6. sæti deildarinnar með 9 stig.

Fyrri greinElsta konan til að klífa tindana sjö bætir Hvannadalshnjúk á afrekalistann
Næsta greinSelfoss mætir ÍBV og Fram í bikarnum