Selfoss leikur báða leikina í Tékklandi

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga í dag. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss leikur báðar viðureignir sínar við tékkneska liðið KH Kopřivnice í 1. umferð Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla úti í Tékklandi um næstu helgi, 18. og 19. september.

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfossliðsins, staðfesti þetta í samtali við handbolti.is. Selfossliðið fer út á morgun með beinu flugi til Póllands og kemur heim mánudaginn 20. september.

„Með því að fara út á þriðjudaginn til Póllands komumst við hjá millilendingum sem einfaldar og auðveldar ferðalagið. Þetta kostar að vísu að ferðin verður einum degi lengri en annars hefði verið. Það er á hinn bóginn mikið hagræði að því að geta sleppt millilendingum og lenda ekki langt frá leikstað,“ sagði Halldór Jóhann við handbolta.is. Kopřivnice er ekki nema í hálfs annars tíma akstursfjarlægð frá Katowice í Póllandi þangað sem Selfossliðið flýgur.

Halldór segir að með því að selja heimaleikjaréttinn hafi tekist að ná viðunandi samningi við forráðamenn Kopřivnice-liðsins. Fjárhagslega ætti útkoman að verða sæmileg.

„Við fáum góðan tíma saman úti sem styrkir liðsheildina fyrir átökin í deildinni sem hefjast fljótlega eftir að við komum heim,“ sagði Halldór Jóhann ennfremur.

Frétt handbolti.is

Fyrri grein3.453 á kjörskrá
Næsta greinEfling geðheilbrigðisþjónustu