Selfoss lagði Íslandsmeistarana

Selfyssingar lögðu Íslandsmeistara Breiðabliks 3-0 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í kvöld.

Liðin mættust í Kórnum í Kópavogi en leikurinn stöðvaðist strax á 3. mínútur þegar rafmagnið fór af Kórnum. Fimmtán mínútum síðar kviknaði aftur ljós í íþróttahöllinni og leikurinn gat hafist.

Selfyssingar voru sprækir í upphafi og Ingi Rafn Ingibergsson kom þeim yfir strax á 7. mínútur. Eftir klafs í teignum náði Ingi að moka knettinum yfir marklínuna. Fimm mínútum síðar slapp Viðar Örn inn fyrir vörn Blika en Ingvar Kale varði vel í markinu.

Eftir það voru Blikar meira með boltann en komust lítið áleiðis gegn selfossvörninni. Selfyssingar freistuðu þess að sækja hratt og áttu nokkrar álitlegar sóknir án þess að skora. Ingi Rafn var nálægt því að skora annað mark sitt á 27. mínútu þegar hann átti lúmskt skot í þverslána. Staðan var 1-0 í hálfleik.

Blikar voru sprækir á upphafsmínútum seinni hálfleiks en Selfyssingar tóku málin í sínar hendur eftir tæpar fimmtán mínútur. Viðar Örn Kjartansson fékk þá langa sendingu innfyrir sem hann lagði vel fyrir sig og skoraði framhjá Kale.

Á 69. mínútu fengu Blikar sitt besta færi en Jóhann Ólafur Sigurðsson var vandanum vaxinn og varði vel í horn. Rúmum fimm mínútum síðar kom svo þriðja mark Selfyssinga. Viðar Örn slapp innfyrir en var felldur af aftasta varnarmanni Blika. Rautt spjald og víti sem Viðar setti sjálfur af öryggi í netið.

Blikar fengu annað hörkufæri á 80. mínútu sem Jóhann Ólafur varði stórglæsilega og fimm mínútum fyrir leikslok slapp Viðar Örn enn á ný í gegn en skaut rétt framhjá markinu.

Með sigrinum fór Selfoss upp í 4. sæti riðilsins með 8 stig. Selfyssingar leika sinn síðasta leik í Lengjubikarnum í hádeginu á laugardag gegn Keflavík í Reykjaneshöllinni.