Selfoss lá heima gegn Haukum

Sara Boye Sörensen bíður eftir að dómarinn flauti sér í vil - sem gerðist ekki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 25-27 þegar Haukar komu í heimsókn í Hleðsluhöllina í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Selfoss er áfram í botnsæti deildarinnar.

Leikurinn var jafn lengi vel í fyrri hálfleik, Selfoss skoraði tvö fyrstu mörkin en Haukar jöfnuðu 3-3 og þegar sautján mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 8-7, fyrir Selfoss. Þá skoruðu Haukar sex mörk í röð á tíu mínútna kafla og breyttu stöðunni í 8-13. Staðan var 10-14 í leikhléi.

Selfyssingar voru kærulausir í upphafi seinni hálfleiks og gekk ekkert að skora. Fyrsta mark þeirra kom eftir sjö og hálfa mínútu en þá var staðan orðin 11-17 og allt stefndi í stórsigur Hauka. Selfoss beit þó aðeins frá sér í kjölfarið en forskot Hauka var erfitt að vinna niður. Munurinn varð minnstur tvö mörk, þegar lokaflautan gall, 25-27 en Selfoss skoraði síðustu tvö mörk leiksins.

Hanna skoraði 12 mörk
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var í miklum ham í kvöld og skoraði 12 mörk auk þess sem hún sendi fimm stoðsendingar. Hún kom því að 17 af 25 mörkum Selfoss í leiknum.

Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 5 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir 3, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir 2/1 og þær Kristrún Steinþórsdóttir, Katla María Magnúsdóttir og Sara Boye Sörensen skoruðu allar 1 mark.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 9 skot í marki Selfoss og var með 36% markvörslu og Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 2 skot og var með 15% markvörslu.

Selfoss er áfram í botnsæti deildarinnar með 1 stig að loknum sex leikjum en Haukar eru í 4. sæti með 6 stig.

Fyrri greinUmhverfisstofnun auglýsir tillögu að friðlýsingu Markarfljóts
Næsta greinSuðurlandsdeild 4×4 bauð Selnum í veglega jeppaferð