Selfoss lá gegn Val

Karlalið Selfoss í knattspyrnu tapaði 3-0 fyrir Val í æfingaleik í Kórnum í gærkvöldi. Nokkra lykilmenn vantaði hjá Selfoss og greinilegt er að liðið er í þungum æfingum.

Valsmenn komust yfir eftir rúman hálftíma en eftir markið sóttu Selfyssingar meira, án árangurs. Valur komst svo í 2-0 rétt fyrir hálfleik en skömmu áður höfðu Selfyssingar fengið sitt besta færi. Arilíus Marteinsson átti þá skot að marki eftir hornspyrnu en Valsmenn björguðu á línu.

Þriðja mark Vals kom í upphafi síðari hálfleiks og gerðist fátt markvert eftir það fyrir utan að Jóhann Ólafur Sigurðsson varði vítaspyrnu frá einum Valsmanna.

Byrjunarlið Selfoss var eftirfarandi: Jóhann Ólafur – Sigurður Eyberg, Agnar Bragi, Kjartan, Andri Freyr – Einar Ottó, Arilíus, Ingólfur, Ingþór – Ingi Rafn og Guðmundur Ármann.

Guðmundur Garðar, Viðar Örn, Arnar Freyr og Óskar Guðjónsson komu inná í síðari hálfleik fyrir Sigurð Eyberg, Guðmund Ármann, Inga Rafn og Agnar Braga.

Fyrri greinTvö Íslandsmet hjá Hirti
Næsta greinHamar tapaði fyrir botnliðinu