Selfoss kvaddi úrvalsdeildina í hörkuslag í Vallaskóla

Einar Sverrisson einbeittur á vítalínunni í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tók á móti Gróttu í lokaumferð úrvalsdeildar karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Það var lítið í húfi í kvöld nema heiðurinn, Selfyssingar fallnir og Grótta ekki á leið í úrslitakeppnina. Leikurinn var hins vegar bráðfjörugur og skemmtilegur og Grótta tryggði sér sigur í blálokin, 32-33.

Jafnræði var með liðunum framan af leik en Grótta átti góðan sprett um miðjan fyrri hálfleikinn, raðaði inn mörkum úr hraðaupphlaupum og breytti stöðunni í 7-10. Selfyssingar svöruðu fyrir sig á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks og komust yfir fyrir leikhlé, 17-16.

Seinni hálfleikurinn var hnífjafn og spennandi, jafnt á nær öllum tölum og liðin skiptust á um að hafa undirtökin. Grótta skoraði tvö síðustu mörk leiksins og þeir áttu síðustu sóknina þar sem þeir skoruðu sigurmarkið um leið og lokaflautan gall.

Einar Sverrisson fór á kostum fyrir Selfoss í kvöld og skoraði 12/3 mörk auk þess sem hann var sterkur í vörninni með 6 brotin fríköst. Richard Sæþór Sigurðsson skoraði 6 mörk, Valdimar Örn Ingvarsson og Sölvi Svavarsson 3, Gunnar Kári Bragason 2 og þeir Haukur Páll Hallgrímsson, Jason Dagur Þórisson, Álvaro Mallols, Tryggvi Sigurberg Traustason, Sæþór Atlason og Hannes Höskuldsson skoruðu allir 1 mark. Sverrir Pálsson var með 5 brotin fríköst í vörninni, eins og Sölvi Svavarsson.

Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 7 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 3.

Fyrri greinHamar tapaði í framlengingu
Næsta greinStærsti viðburður allra tíma í Iðu