Selfoss-KR 0-3

Selfyssingar töpuðu sannfærandi, 0-3, fyrir Knattspyrnufélagi Reykjavíkur þegar liðin mættust á Selfossvelli í Pepsi-deild karla í kvöld.

Selfoss fékk prýðileg færi á upphafsmínútunum og strax eftir 16 sekúndur átti Jón Daði Böðvarsson hörkuskalla að marki sem Lars Moldskred varði yfir. Selfyssingar voru mun ákveðnari fyrsta korterið en á 18. mínútu kom Mark Rutgers KR-ingum yfir.

Markið hjá Rutgers kom eftir hornspyrnu, eitthvað sem Selfyssingar eru farnir að þekkja vel, en þrátt fyrir að það væri gegn gangi leiksins var það nóg til að brjóta Selfossliðið á bak aftur. KR átti leikinn eftir þetta og Guðjón Baldvinsson bætti við tveimur mörkum. Það fyrra kom á 27. mínútu og það síðara á þeirri 45. Enn einu sinni fá Selfyssingar því á sig mark á lokasekúndum fyrri hálfleiks.

Strax á 4. mínútu síðari hálfleiks fékk Jordao Diogo, aftasti varnarmaður KR, rautt spjald fyrir að brjóta á Sævar Þór Gíslasyni. Selfyssingar sóttu stíft eftir þetta en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn og fengu engin alvöru færi. Jón Daði Böðvarsson komst næst því að setja knöttinn á markið þegar hann átti þrumuskot framhjá eftir góða sókn á 69. mínútu.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M), Agnar Bragi Magnússon, Guðmundur Þórarinsson, Martin Dohlsten, Stefán Ragnar Guðlaugsson, Einar Ottó Antonsson, Jean Stephane YaoYao (Arilíus Marteinsson +46), Viktor Unnar Illugason, Jón Daði Böðvarsson, Sævar Þór Gíslason (F), Jón Guðbrandsson (Bolou Guessan +67).

Ónotaðir varamenn: Elías Örn Einarsson, Kjartan Sigurðsson, Ingþór Jóhann Guðmundsson, Ingi Rafn Ingibergsson, Andri Freyr Björnsson.