Selfoss komst lítið áfram í seinni hálfleik

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði 24-28 gegn sterku liði Fram í Olísdeildinni í handbolta í dag.

Jafnt var á flestum tölum fyrsta korterið en þá tóku Framarar af skarið og leiddu 13-17 í hálfleik.

Selfoss minnkaði muninn í tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks en þá kom góður kafli hjá Fram sem náði að auka forskotið í sex mörk. Munurinn hélst í 4-6 mörkum það sem eftir var og sigur Framara var öruggur.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 7/4 mörk, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Karen Helga Díönudóttir skoruðu báðar 4 mörk, Rakel Guðjónsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir 3, Arna Kristín Bragadóttir 2 og Katla Björg Ómarsdóttir 1.

Cornelia Hermansson var góð í marki Selfoss, varði 14 skot og var með 34% markvörslu.

Selfyssingurinn Perla Ruth Albertsdóttir var besti leikmaður Fram í dag, hún skoraði 8/3 mörk og var öflug í vörninni ásamt Kristrúnu Steinþórsdóttur.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 8 stig en Fram er í 4. sæti með 21 stig.

Fyrri greinHamar bikarmeistari í þriðja sinn
Næsta greinSundlaugum lokað vegna kuldakasts