Selfoss knúði fram jafntefli

Selfoss og FH gerðu 19-19 jafntefli í Olís-deild kvenna í handbolta í íþróttahúsi Vallaskóla í kvöld. Selfoss skoraði tvö síðustu mörk leiksins eftir rafmagnaðar lokamínútur.

Selfyssingar léku á alls oddi í upphafi leiks og leiddu 7-1 snemma í fyrri hálfleik. Munurinn hefði getað verið meiri því markvörður FH varði vel í byrjun leiks en gestunum gekk illa að hitta á rammann í sókninni. Þegar leið á fyrri hálfleikinn skoraði FH fimm mörk í röð og minnkaði muninn í 7-6. Þá tóku Selfyssingar við sér aftur og náðu þægilegu forskoti fyrir leikhlé, 12-8.

FH skoraði fimm fyrstu mörkin í síðari hálfleik og breytti stöðunni í 12-13. Eftir það var leikurinn í járnum en Selfyssingum gekk mjög illa í sókninni gegn grimmum FH-konum. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum náði FH tveggja marka forskoti, 17-19. Kristrún Steinþórsdóttir minnkaði muninn þegar rúm ein og hálf mínúta var eftir og varnarmaður FH fauk um leið útaf með tveggja mínútna brottvísun.

Manni áttu Selfyssingar ekki í miklum erfiðleikum með að verjast FH-ingum og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir jafnaði 19-19 úr fyrsta vítakasti Selfoss í leiknum þegar tíu sekúndur voru eftir. FH tók leikhlé í kjölfarið og uppskar aukakast um leið og leiktíminn rann út. Varnarveggur Selfoss varði hins vegar skotið og niðurstaðan 19-19 jafntefli.

Carmen Palamariu skoraði 6 mörk fyrir Selfoss, Hrafnhildur Hanna 6/1, Kristrún 4, Kara Rún Árnadóttir 2 og Dagmar Öder Einarsdóttir 1.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 6/1 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu.

Fyrri greinVindmyllurnar í Þykkvabæ gangsettar
Næsta greinLandferðir aka í Hamarshöllina