Selfoss kláraði Stjörnuna í fyrri hálfleik

Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á Stjörnunni í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Selfyssingar voru frábærir í fyrri hálfleik, gáfu Stjörnunni engan tíma á boltann og pressuðu vel. Selfoss komst yfir á 17. mínútu þegar þær fengu vítaspyrnu, líklega eftir að boltinn hafi farið í höndina á leikmanni Stjörnunnar innan teigs. Dagný Brynjarsdóttir skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. 

Á 28. mínútu átti Tiffany McCarty góða sendingu á Magdalenu Reimus sem afgreiddi boltann glæsilega, viðstöðulaust með vinstri í markið. Þremur mínútum síðar átti Selfoss aftur góða sókn sem lauk með fyrirgjöf frá McCarty sem Dagný skallaði með tilþrifum í netið. Núll þrjú í hálfleik.

Selfoss hafði áfram töglin og hagldirnar í seinni hálfleik og á 64. mínútu sendi McCarty góða sendingu innfyrir á Magdalenu sem kláraði færið af öryggi. Annað mark Magdalenu og þriðja stoðsending McCarty. Staðan 0-4.

Leikurinn fjaraði nokkuð út á lokakaflanum og færin voru fá en Stjörnukonur áttu síðasta orðið þegar þær minnkuðu muninn í 1-4 eftir snarpa sókn á 88. mínútu.

Með sigrinum lyfti Selfoss sér upp í 4. sæti deildarinnar en þær hafa nú 6 stig, eftir fjórar umferðir.

Fyrri greinÚtsýnispallur opnaður við Hrafnagjá
Næsta greinSterk stig á heimavelli