Selfoss – Keflavík 3-2

Selfyssingar lögðu Keflvíkinga á dramatískan hátt þegar liðin mættust í Pepsi-deild karla í kvöld. Lokatölur voru 3-2.

Fyrir leik var mikið um dýrðir þar sem nýr aðalvöllur og stúka voru vígð. Hvort fagnaðarlætin yfir nýju aðstöðunni var eitthvað að trufla Selfossliðið var ekki gott að segja en það mætti steindautt og stressað til leiks. Keflvíkingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir strax á 12. mínútu þegar Magnús Matthíasson slapp innfyrir og skoraði.

Keflvíkingar héldu áfram að sækja og bættu öðru marki við á 37. mínútu. Þar var að verki Hörður Sveinsson, kolrangstæður, en aðstoðardómarinn var ekki í neinni stöðu til að sjá það enda langt frá því að vera í línu við varnarmenn Selfoss.

Fáir höfðu trú á því að Selfyssingar gætu komið til baka í síðari hálfleik, slíkt var andleysið. Einar Ottó Antonsson kom inná í hálfleik fyrir Gunnar Borgþórsson og þétti leik liðsins töluvert á miðsvæðinu. Ekki voru nema sjö mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Jón Guðbrandsson minnkaði muninn. YaoYao tók aukaspyrnu úti á kanti sem rataði beint á kollinn á Jóni og í netið. Selfyssingar efldust við markið og voru meira með boltann þó að lítið væri um færi. Keflvíkingar hefðu reyndar getað komist í 3-1 en Hörður Sveinsson slapp tvisvar innfyrir. Í fyrra skiptið varði Jóhann Ólafur en í það síðara sótti Agnar Bragi Magnússon boltann af tánum á Herði.

Viðar Örn Kjartansson kom inná á 76. mínútu fyrir Arilíus Marteinsson og hann átti heldur betur eftir að láta til sín taka. Fimm mínútum eftir að hann kom inná fiskaði hann vítaspyrnu en Lasse Jörgensen, markvörður gestanna, felldi hann í teignum.

Viktor Unnar Illugason fór á punktinn og skoraði af öryggi en þurfti að endurtaka spyrnuna þar sem YaoYao hljóp alltof snemma inn í teig og tók nánast fram úr boltanum. Viktori brást ekki bogalistin í seinna skiptið og vippaði svalt í mitt markið.

Allt ætlaði um koll að keyra í nýju stúkunni sem tók nú loksins við sér og Selfossliðið nærðist á stemmingunni. Sigurmarkið kom fjórum mínútum fyrir leikslok. Viktor Unnar laumaði þá knettinum glæsilega inn á Viðar sem skoraði örugglega. Keflvíkingar reyndu að svara fyrir sig og voru næstum búnir að jafna í næstu sókn en Selfyssingar beittu hinni frægu nauðvörn í tvígang. Á lokamínútunni átti Viktor Unnar stangarskot sem Ingi Rafn Ingibergsson fylgdi eftir en Jörgensen varði auðveldlega.

Það þarf ekki að taka það fram að svona ævintýralegum sigri fylgdu mögnuð fagnaðarlæti innan vallar sem utan enda stigin mikilvæg fyrir Selfyssinga.

Nánari umfjöllun og viðtöl við leikmenn koma munu birtast í kvöld.