Selfoss í úrvalsdeildina

Selfoss tryggði sér sæti í Olís-deild karla í handknattleik á næstu leiktíð með frábærum sigri á Fjölni 24-28 í oddaleik í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld.

Selfoss er þar með komið í deild þeirra bestu á nýjan leik eftir fimm ára dvöl í 1. deild.

Birkir Fannar Bragason, markvörður Selfoss, var líka í liðinu sem fór upp úr 1. deildinni árið 2010. Hann segir þennan áfanga sætari.

„Mér finnst þetta skemmtilegra núna. Í kvöld var allt undir í oddaleik á útivelli með þessa frábæru stuðningsmenn með okkur. Við vorum með betri stuðning en heimaliðið… já, mér finnst þetta skemmtilegra núna. Þetta var svakalegt einvígi,“ sagði Birkir Fannar í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Hann hrósaði Helga Hlynssyni, kollega sínum í marki Selfoss sérstaklega.

„Það var gott að hann gat leyst gamla manninn af, hann var að taka hraðaupphlaupin og víti og það voru rosalega mikilvæg augnablik í leiknum. Kroppurinn á mér þolir ekki svona álag en Helgi kom inná í síðasta leik og reddaði okkur þá, og hélt uppteknum hætti í kvöld og var frábær í kvöld. Við erum mjög góðir saman,“ sagði Birkir Fannar léttur að lokum.

Eins og fyrri leikir liðanna var þessi æsispennandi framan af. Fjölnir hafði undirtökin lengst af og leiddi 13-11 í hálfleik. Þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik hafði Fjölnir þriggja marka forystu, 18-15, en þá fór Mjaltavélin að malla, stemmningin fór stigvaxandi og á lokakaflanum völtuðu Selfyssingar yfir heimamenn.

Vel á fjórða hundrað stuðningsmanna fylgdi Selfossliðinu í leikinn og er óhætt að segja að framlag þeirra hafi vegið þungt. Stemmningin var líka frábær í leikslok og mikið fagnað og innilega. Þegar þetta er skrifað eru Selfyssingar á heimleið, í lögreglufygld, og verður tekið á móti liðinu með fánum og flugeldum við brúarsporðinn, en móttaka verður á Kaffi Selfoss.

Eyvindur Hrannar Gunnarsson var markahæstur Selfyssinga í kvöld með 7 mörk. Elvar Örn Jónsson skoraði 5/2, Atli Kristinsson, Sverrir Pálsson og Þórir Ólafsson 3, Guðjón Ágústsson og Teitur Örn EInarsson 2, Andri Már Sveinsson 2/1 og Hergeir Grímsson 1.

Helgi Hlynsson var frábær í marki Selfoss þegar mest á reyndi. Hann varði 16/1 skot og Birkir Fannar Bragason varði 2 skot.

Fyrri grein„Sprenging í hjálmanotkun“
Næsta grein„Við áttum þetta hús“