Selfoss í úrslitaleikinn

Kvennalið Selfoss tryggði sér í dag sæti í úrslitaleik C-deildar Lengjubikarsins í knattspyrnu með 1-0 sigri á Skagakonum á Selfossi.

Selfyssingar byrjuðu betur og voru einráðir á vellinum fyrstu mínúturnar. Selfoss fékk tvö dauðafæri án þess að skora áður en Anna María Friðgeirsdóttir skoraði eina mark leiksins á 11. mínútu. Guðmunda Óladóttir komst þá inní misheppnaða sendingu Skagastúlku á markmann. Guðmunda var óeigingjörn og renndi boltanum á Önnu Maríu sem var á auðum sjó og skoraði. Eftir mark Selfoss jafnaðist leikurinn og baráttan var mikil inni á vellinum.

Staðan var 1-0 í hálfleik en í seinni hálfleik skiptust liðin á að sækja án þess að koma sér í opin færi. Sóknir ÍA þyngdust verulega á lokakaflanum og áttu þær þá meðal annars skot í stöng og slá en inn fór boltinn ekki og Selfyssingar fögnuðu vel í leikslok.

Þetta er í fyrsta sinn sem Selfoss kemst í úrslitaleik deildarbikarsins en úrslitaleikurinn fer fram á þriðjudagskvöld. Þar mætir Selfoss Keflavík.

Fyrri greinÞúsundir á sveitadegi
Næsta greinÞyrla sækir slasaðan sleðamann