Selfoss í úrslitakeppnina

Vojtech Novák. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar komust inn í úrslitakeppni 1. deildar karla í körfubolta þrátt fyrir tap gegn ÍA í lokaumferð deildarinnar í kvöld. Á sama tíma töpuðu Hrunamenn gegn ÍR.

Leikur ÍA og Selfoss var jafn á upphafsmínútunum en undir lok 1. leikhluta og í upphafi 2. leikhluta náðu Skagamenn forskoti og komust í 28-19. Staðan var 42-34 í hálfleik. Skagamenn byrjuðu betur í seinni hálfleik og náðu 20 stiga forskoti en Selfyssingar svöruðu fyrir sig og náðu að minnka muninn í 7 stig þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. ÍA hélt sjó á lokamínútunum og sigraði að lokum, 94-87.

Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 30 stig og 13 fráköst, Ísar Jónasson skoraði 19, Birkir Hrafn Eyþórsson 18 og Vojtech Novák 10, auk þess sem hann tók 9 fráköst og sendi 8 stoðsendingar.

Þrátt fyrir tapið náðu Selfyssingar 9. sæti í deildinni og mæta sterku liði ÍR í 8-liða úrslitum. Fyrsti leikur liðanna verður þann 5. apríl í Breiðholtinu.

Hrunamenn neðstir
Hrunamenn urðu í neðsta sæti deildarinnar en í kvöld heimsóttu þeir ÍR-inga í Skógarselið. ÍR náði góðu forskoti strax í 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 45-33. ÍR-ingar gerðu út um leikinn í upphafi seinni hálfleiks þar sem þeir áttu góðan sprett og sigruðu að lokum, 94-72.

Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 29 stig og 9 fráköst, Sam Burt skoraði 12 stig og Aleksi Liukko skoraði 10 stig og tók 15 fráköst.

Fyrri greinSamið við Verkeiningu um leikskólabyggingu
Næsta greinAukinn kraftur með hækkandi sól